top of page

FJÁRHAGSLEGIR HAGSMUNIR STÚDENTA

RÉTTMÆT SKRÁSETNINGARGJÖLD

Röskva setur spurningamerki við réttmæti skrásetningargjalda eins og þau standa og telur þau vera falin skólagjöld sem skerða jafnrétti til náms. Grundvallarhugsjón Röskvu er jafnrétti allra til náms. Röskva leggst alfarið gegn hækkun skrásetningargjalda og krefst lækkunar á þeim.

 

DREIFÐAR GREIÐSLUR Á SKRÁSETNINGARGJALDI

Röskva vill að það standi stúdentum til boða að dreifa greiðslum á skrásetningargjaldi. Það eru fordæmi fyrir þessu, t.a.m. var þessi möguleiki í boði í COVID-19 faraldrinum. 

 

SKRÁSETNINGARGJALD GREITT EFTIR ÖNNUM

Fyrir þá stúdenta sem þreyta samkeppnispróf á haustönn og fá ekki að halda áfram á vorönn vill Röskva að þessir nemar borgi lægra skrásetningargjald. Þetta svipar til þess að fólk sem byrjar í námi á vorönn greiðir ekki fullt gjald. 

 

INNTÖKUPRÓF

Röskva krefst þess að þátttökuverð í inntökupróf verði haldið í lágmarki. Röskva leggst alfarið gegn fjöldatakmörkunum í niðurskurðarskyni. Markmið inntökuprófa ætti að vera að bæta gæði náms en ekki hindra aðgang að því. Taka verður tillit til sértækra námsþarfa, íslenskukunnáttu og annarra þátta sem geta haft áhrif á frammistöðu á inntökuprófum en ekki endilega í náminu sjálfu. Í ljósi þess að inntökupróf henta mismunandi deildum misvel leggur Röskva til að ráðamenn Háskólans taki ekki lokaákvarðanir hvað þetta varðar nema í samráði við nemendur þeirra deilda sem í hlut eiga.

 

GJÖLD FYRIR INNTÖKUPRÓF FARI UPP Í SKRÁSETNINGARGJALDIÐ

Röskva vill að gjaldið sem stúdentar borgi fyrir inntökupróf fari upp í skrásetningargjaldið. Það kemur í veg fyrir að fólk sem þreytir inntökupróf og skráir sig í nám sé að eyða meira fjármagni en aðrir stúdentar í sitt nám.

ÓDÝRARA AÐ LIFA SEM NÁMSMAÐUR

Eins og tíðkast á Norðurlöndum og víðar telur Röskva eðlilegt að stúdentar séu taldir til láglaunahópa eins og öryrkjar og aldraðir. Stúdentar eiga að fá staðlaðan afslátt af samfélagsþjónustu eins og samgöngum, heilbrigðisþjónustu og leikskólaþjónustu. Röskva vill einnig berjast fyrir hækkun á frístundastyrk fyrir börn stúdenta.

LÝÐHEILSUKORT FYRIR STÚDENTA 

Röskva vill ð komið sé á lýðheilsukorti fyrir stúdenta sem tryggir þeim afslætti eða ókeypis aðgang í sund og líkamsræktarstöðvar. Þetta yrði stórt skref í að efla bæði andlega og líkamlega heilsu stúdenta. 

MENNINGARKORT FYRIR STÚDENTA

Röskva vill að stúdentar fái menningarkort sem veitir afslætti eða ókeypis aðgang á menningarstofnanir á borð við listasöfn og sýningar. Er þetta að evrópskri fyrirmynd þar sem stúdentar fá sem dæmi ókeypis á menningarstofnanir á tilteknum virkum degi. 

ÚRRÆÐI TIL BÓKAKAUPA 

Röskva vill að athygli verði vakin á ódýrari lausnum til bókakaupa, t.d. rafbækur og bókasöfn. Röskva vill einnig að Bóksala stúdenta beiti sér fyrir auknu úrvali af rafbókum sem hægt er að leigja út. 

VERKFÆRASAFN FS

 

Röskva leggur til að Félagsstofnun Stúdenta komi sér upp svokölluðu verkfærasafni (e. tool library) þar sem stúdentar geti nálgast ýmis verkfæri og áhöld, til dæmis til matargerðar og viðhalds endurgjaldslaust eða gegn vægu gjaldi. Miðar þetta að áherslum Röskvu um sjálfbærni, minni einkaneyslu og deilihagkerfi.

FRÍSKÁPUR Á STÚDENTAGARÐA 

Röskva vill að frískápi verði komið fyrir á á stúdentagörðunum. Mörg sveitarfélög hafa komið upp frískápum sem hafa reynst vel. Með frískáp væri hægt að sporna gegn matarsóun og stúdentar gætu sparað sér pening í leiðinni.

SKIPTIBÓKAMARKAÐUR BÓKSÖLUNNAR

Röskva vill að skiptibókamarkaður Bóksölunnar verði auglýstur betur og verði opinn allt skólaárið. 

bottom of page