top of page

Lög Röskvu 

I. KAFLI - NAFN OG MARKMIÐ

1 . gr. - Nafn samtakanna

a. Nafn samtakanna er Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, hér eftir Röskva. Lögheimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. - Markmið Röskvu

a. Markmið samtakanna er að stuðla að öflugri hagsmunabaráttu stúdenta, jafnt innan sem utan Háskólans. 

b. Að leiðarljósi skal hafa jafnrétti til náms, óháð efnahag, búsetu, kynferði, kynhneigð, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Jafnframt skal stuðla að kvenfrelsi og jöfnum rétti allra kynja á öllum sviðum háskólasamfélagsins.

 

II. KAFLI - STJÓRN SAMTAKANNA

3. gr - Stjórn samtakanna og starfsemi þeirra

a. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir hún með sér verkum að öðru leyti en því sem aðalfundur ákveður. 

b. Stjórnarmeðlimir skulu kynna sér lög samtakanna og starfa eftir þeim.

c. Forseti samtakanna stýrir starfi stjórnar og útdeilir verkefnum öðrum en eftirtöldum. 

i. Varaforseti annast félagatal og heldur utan um mál nýliða innan hreyfingarinnar. Varaforseti er staðgengill forseta í fjarveru hans.

ii. Ritari heldur gerðabók stjórnar. Ef ritari getur ekki setið fund skal stjórn tilnefna annan stjórnarmeðlim til að sinna störfum ritara.

iii. Markaðsstjóri sér um fjáraflanir samtakanna. 

iv. Gjaldkeri annast fjármál samtakanna og skal halda bókhald þeirra. 

v. Ritstjóri hefur umsjón með málgagni samtakanna.

vi. Kynningarstjóri ber ábyrgð á heimasíðu samtakanna og samfélagsmiðlum og getur úthlutað verkefnum til annarra.  

vii. Skemmtanastjóri sér um skemmtanir og viðburði.

viii. Kosningastjóri sér um undirbúning kosningabaráttu. 

ix. Alþjóðafulltrúi sér um að efla þátttöku erlendra stúdenta í starfinu og er rödd þeirra í hagsmunabaráttu. 

x. Meðstjórnandi sinnir tilfallandi störfum og nýjum verkefnum.

xi. Meistarafulltrúi sér um að efla þátttöku framhaldsnema í starfi Röskvu.

4. gr - Stjórnarfundir

a. Forseti samtakanna boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Þrír stjórnarmeðlimir geta krafist stjórnarfundar og er þá forseta skylt að kalla stjórn saman til fundar innan þriggja sólarhringa. 

b.Til þess að stjórnarfundur teljist löglegur þarf minnst helmingur stjórnarmeðlima að vera viðstaddir. 

c. Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða stjórnar. 

d. Stjórnarfundir skulu vera opnir Stúdentaráðsliðum samtakanna. Hafa þeir málfrelsis- og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa einungis meðlimir stjórnar. 

e. Krefjist meirihluti stjórnar þess skal fundur vera lokaður. 

f. Oddviti Röskvu í Stúdentaráði má alltaf sitja stjórnarfundi. 

g. Falli atkvæði jafnt sem greidd eru á stjórnarfundum Röskvu telst tillagan felld. 

5. gr - Hagsmunaárekstrar

a. Komi upp hagsmunaárekstrar sem hamli stjórnarmeðlimum í sínum verkefnum hefur meirihluti stjórnar leyfi til þess að vísa verkefni tímabundið til annars stjórnarmeðlims.

b. Stjórn Röskvu metur það hverju sinni hvað teljist til fyrrgreindra hagsmunaárekstra. 

c. Stjórn Röskvu og/eða trúnaðarfulltrúar taka við skriflegum ábendingum frá félagsmönnum Röskvu um hagsmunaárekstra. 

6. gr - Afsagnir embættismanna

a. Segi embættismaður samtakanna af sér skal forseti samtakanna boða til stjórnarfundar innan viku frá afsögn embættismanns, þar sem stjórn leggur mat á hvenær boða þurfi til aukaaðalfundar til að kjósa nýjan aðila í embættið. 

7. gr - Vantraust

a. Vantrauststillögur skulu berast skriflega með rökstuddum hætti til stjórnar, trúnaðarfulltrúa eða oddvita. 

b. Berist vantrauststillaga á embættismann samtakanna skal tilkynna þeim sem vantrauststillagan beinist að um hana og stjórn samtakanna skal taka hana upp á næsta fundi sínum. Ferlið skal vera í samráði við tilkynnanda. Í framhaldi af því skal stjórn boða til aukaaðalfundar innan tveggja vikna frá því að vantrauststillaga berst. 

c. Til þess að samþykkja vantrauststillögu á aukaaðalfundi þarf ¾ atkvæða félagsmanna. Heimilt er að hafa vantrauststillögu nafnlausa ef eftir því er óskað. Atkvæði skulu greidd skv. 18. gr. laganna og atkvæðisréttur er skv. 15. gr. 

8. gr - Nýliðafulltrúar

a. Tveir nýliðafulltrúar skulu fá sæti í stjórn á haustmisseri. Stjórn ber ábyrgð á því að auglýsa eftir nýliðafulltrúum í framboð og skera úr um hver þeirra fá sæti í stjórn. 

b. Við kjör fá nýliðafulltrúar sæti í nýliðunarnefnd. 

c. Skipun í þessi embætti skal vera lokið fyrir 15. október á hverju ári. 

9. gr - Trúnaðarfulltrúar

a. Kjörnir skulu tveir trúnaðarfulltrúar á aðalfundi af mismunandi kynjum og skulu þeir gegna embætti trúnaðarfulltrúa samhliða nýkjörinni stjórn. 

b. Félagsmeðlimir snúa sér til trúnaðarfulltrúa varðandi umkvartanir sínar, sem ber skylda til að taka fyrir og beina þeim málum sem upp koma í réttan farveg í samráði við tilkynnanda. 

c. Trúnaðarfulltrúi skal vera virkur í starfi samtakanna hvort sem er í stjórn, Stúdentaráði eða á öðrum vettvangi út kjörtímabilið. 

d. Trúnaðarfulltrúi eða staðgengill þeirra skulu ávallt vera viðstaddir á viðburðum Röskvu. Trúnaðarfulltrúar skulu koma sér saman um það hvor fulltrúi skuli vera á staðnum hverju sinni, telji þeir það óþarft að báðir séu til staðar á þeim tiltekna viðburði. Sjái trúnaðarfulltrúar sér ekki kleift að vera viðstaddir á viðburði sem haldinn er á vegum Röskvu skulu þeir í samráði við stjórn tilnefna stjórnarmeðlim til að ganga í hlutverk trúnaðarfulltrúa þar.

e. Trúnaðarfulltrúi skal ávallt gæta fyllsta trúnaðar. 

 

III. KAFLI - NEFNDIR RÖSKVU OG STARFSEMI ÞEIRRA

10. gr - Nefndir Röskvu

a. Nefndir Röskvu eru átta: Alþjóðanefnd, kynningarnefnd, markaðsnefnd, málefnanefnd, nýliðunarnefnd, ritstjórn, skemmtinefnd og meistaradeildin.

b. Í hverri nefnd sitja fjórir til sex aðilar, eftir því sem forseta nefndarinnar, í samráði við stjórn, þykir viðeigandi hverju sinni og þar skulu að minnsta kosti tveir af þeim vera nýliðar sem teknir eru inn að hausti. Forseti hverrar nefndar skal sitja í stjórn Röskvu. Forsetar hverrar nefndar eru eftirfarandi:

i. Forseti alþjóðanefndar er alþjóðafulltrúi. 

ii. Forseti kynningarnefndar er kynningarstjóri.

iii. Forseti markaðsnefndar er markaðsstjóri. 

iv. Forseti málefnanefndar er oddviti Röskvu í Stúdentaráði. Forseti Röskvu skal einnig hafa sæti í málefnanefnd. 

v. Forseti nýliðunarnefndar er varaforseti. 

vi. Forseti ritstjórnar er ritstjóri.

vii. Forseti skemmtinefndar er skemmtanastjóri. 

viii. Forseti meistaradeildar er meistarafulltrúi

c. Stjórnin skal auglýsa eftir fólki í nefndirnar eftir fyrsta fund nýrrar stjórnar.  Stjórnin skal auglýsa eftir fólki í nefndirnar í síðasta lagi þremur vikum eftir að ný stjórn hefur tekið við störfum. Sækist fleiri eftir stöðu í nefndum en komast að skal stjórn úrskurða um það á stjórnarfundi. 

d. Forseti hverrar nefndar, nema málefnanefndar, skal boða til fundar a.m.k. einu sinni í mánuði. 

11. gr. - Starfsemi nefnda Röskvu

a. Alþjóðanefnd ber ábyrgð á að kynna starf Röskvu fyrir stúdentum af erlendum uppruna. Nefndinni ber einnig að efla þessa stúdenta í starfinu og tryggja þeim vettvang til pólitískrar þátttöku innan háskólasamfélagsins.

b. Kynningarnefnd heldur Röskvu sýnilegri á öllum stundum og heldur fylgjendum hreyfingarinnar upplýstum. Nefndin sér um alla samfélagsmiðla og heimasíðu Röskvu. Forseti nefndarinnar skal útdeila verkefnum á nefndarmeðlimi svo markmið nefndarinnar sé raunhæft. 

c. Markaðsnefnd heldur utan um allar fjáraflanir fyrir Röskvu í samráði við aðrar nefndir, þar sem á við. 

d. Málefnanefnd heldur utan um mótun stefnu Röskvu og er Stúdentaráðsliðum Röskvu til halds og trausts við mótun að tillögum fyrir Stúdentaráð. Nefndin ber ábyrgð á fullmótun stefnu Röskvu fyrir þá fundi þar sem að henni er unnið. 

e. Nýliðunarnefnd heldur utan um nýja meðlimi Röskvu og kynnir starfsemina fyrir nýnemum skólans. Forseti nefndarinnar skal boða til funda þar sem virkir meðlimir Röskvu koma saman fyrir mikilvæga viðburði Röskvu. Forseti nefndarinnar skal gæta að því að nefndarmeðlimir séu af öllum sviðum ef mögulegt er og áskilur sér rétt á að taka lokaákvörðun varðandi skipun sæta í nefndinni. 

f. Ritstjórn sér um útgáfu haustblaðs og kosningarits. Forseta ritstjórnar er heimilt að gefa út annars konar blað í samráði við stjórn. Ritstjórn má eiga í samstarfi við aðrar nefndir við vinnslu málgagna.

g.  Skemmtinefnd heldur utan um að skipuleggja, framkvæma og halda utan um alla viðburði á vegum Röskvu. Góð samskipti skulu vera á milli nefndar og stjórnar. 

h. Meistaradeildin sér um að efla þátttöku meistara- og framhaldsnema við HÍ með ýmsu móti og vera tengiliður og standa vörð um hagsmuni þeirra. Nefndinni ber einnig að efla þessa stúdenta í starfinu og tryggja þeim vettvang til pólitískrar þátttöku innan háskólasamfélagsins. 

 

IV. KAFLI - FUNDIR RÖSKVU

12. gr - Aðalfundur

a. Aðalfund samtakanna skal halda árlega, innan mánaðar frá kosningum til Stúdentaráðs.

b. Til aðalfundar og aukaaðalfundar skal boða með minnst viku fyrirvara og skal hann auglýstur tryggilega, t.a.m. í byggingum Háskóla Íslands, á samfélagsmiðlum og á heimasíðu samtakanna.

c. Í fundarboði skal auglýst eftir framboðum til stjórnar samtakanna sem og lagabreytingum. 

13. gr -  Kjörstjórn 

a. Stjórn Röskvu skal auglýsa eftir framboðum í kjörstjórn sem hefur það hlutverk að annast framkvæmd kosninga skv. 16. gr. Forseti kjörstjórnar skal skipaður af stjórn Röskvu í síðasta lagi innan viku frá úrslitum kosninga til Stúdentaráðs.

b. Þau sem sitja í kjörstjórn skulu ekki vera í framboði.

14. gr - Endurnýjun félagatals

a. Endurnýjun félagatals skal fara fram minnst árlega, eftir kosningar til Stúdentaráðs. Endurnýjun félagatals skal vera lokið minnst viku fyrir aðalfund félagsins og aðeins þau sem skráð eru fyrir það hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

b. Skilyrði þess að mega skrá sig í félagatal Röskvu eru að viðkomandi hafi uppfyllt öll eftirfarandi atriði einhvern tímann á undanförnum 2 árum: 

i. Viðkomandi hafi verið skráður nemandi við Háskóla Íslands eða hafi gegnt trúnaðarstarfi fyrir Röskvu.

ii. Viðkomandi hafi tekið virkan þátt í starfi Röskvu.

iii. Skráningarbeiðni hafi borist þess efnis til umsjónaraðila félagatals.

c. Komi upp vafi um skráningu í félagatalið hefur stjórn úrskurðarvald

15. gr - Atkvæðisréttur

a. Atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir félagsmenn sem skráðir eru í félagatal skv. 14. grein hér að ofan.

16. gr -  Framboð til embætta á aðalfundi

a. Framboðum til stjórnar og annarra embætta skal skila til kjörstjórnar a.m.k einum sólarhring fyrir upphaf aðalfundar. 

b. Hljóti frambjóðandi ekki kjör er frambjóðanda heimilt að bjóða sig fram í nýtt embætti eftir að kosið hefur verið í öll embætti sem framboð bárust í. Hafi engin framboð borist í embætti framlengist umsóknarfrestur fram að kosningu á aðalfundi. 

c. Frambjóðanda er óheimilt að tilkynna framboð sitt á opinberum vettvangi fyrir aðalfund, þ.á.m. í byggingum Háskóla Íslands og á samfélagsmiðlum. 

d. Forseti kjörstjórnar skal gefa út leiðbeiningar til frambjóðenda um hvernig tilkynningum framboða verður háttað. Leiðbeiningar skulu gerðar opinberar innan fimm sólarhringa fyrir aðalfund.

17. gr - Dagskrá aðalfundar

a. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

i. Setning fundar.

ii. Kosning fundarstjóra og -ritara aðalfundar.

iii. Afstaða tekin til kosningaréttar fundargesta.

iv. Skýrsla stjórnar fyrir liðið ár kynnt. 

v. Endurskoðaðir reikningar samtakanna kynntir og bornir upp til samþykktar.

vi. Lagabreytingar.

vii. Tilnefningar Röskvu á skrifstofu Stúdentaráðs. Kjör í eftirfarandi röð: forsetaefnis, varaforsetaefnis, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa Röskvu í Stúdentaráði. 

viii. Kjör oddvita Röskvu í Stúdentaráði.

ix. Kjör stjórnar í eftirfarandi röð: Forseta, varaforseta, ritara, gjaldkera, ritstjóra, alþjóðafulltrúa, markaðsstjóra, skemmtanastjóra, kynningarstjóra, kosningastjóra, meðstjórnanda og meistarafulltrúa.

x. Kjör tveggja skoðunarfulltrúa reikninga auk varafulltrúa.

xi. Kjör trúnaðarfulltrúa

xii. Önnur mál.

xiii. Fundarslit.

18. gr - Kjör embætta og atkvæðagreiðsla

a. Til að frambjóðandi teljist kjörinn í embætti skal hann eigi hljóta minna en helming greiddra atkvæða á aðalfundi. Berist fleiri en tvö framboð í embætti skal kosið eftir forgangsröðunarkosningu: 

i. Kjósendur kjósa einn frambjóðanda sem fyrsta val. Þeir geta þó valið fleiri til vara og númera þá í röð eftir stuðningi sínum. 

ii. Sigurvegari kosninganna er sá frambjóðandi sem hlýtur meirihluta atkvæða sem fyrsta val. Ef enginn frambjóðandi hlýtur meirihluta sem fyrsta val er sá frambjóðandi sem fæst atkvæði hlaut sem fyrsta val útilokaður og atkvæðum hans dreift á grundvelli varaatkvæða kjósenda, þ.e. hverja þeir kusu sem annað val. Hafi enginn frambjóðandi þá hlotið meirihluta atkvæða er sá sem hefur fæst atkvæði aftur útilokaður og varaatkvæðum hans dreift á þá sem kjósendur hans settu í næsta val o.s.frv.

b. Heildarfjöldi atkvæða skal tilgreindur er niðurstöður kosninga liggja fyrir. Trúnaður skal ríkja á milli frambjóðenda og kjörstjórnar um skiptingu atkvæða. 

c. Kjörstjórn er heimilt að boða til utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir aðalfund. Kjörstjórn er heimilt að hafa hana rafræna. 

19. gr - Lagabreytingar

a. Lögum samtakanna getur verið breytt á aðalfundi, aukaaðalfundi og lagabreytingafundi. 

b. Lögum verður breytt með auknum meirihluta (⅔) atkvæða fundargesta. 

c. Heimilt er að leggja fram munnlegar breytingartillögur á aðalfundi. 

d. Skriflegar lagabreytingatillögur skulu berast stjórn a.m.k. sólarhring fyrir aðalfund.

e. Forseti getur boðað til aukaaðalfundar, að fengnu samþykki stjórnar. Boðað skal til hans með sama hætti og um aðalfund væri að ræða, sbr. 12. gr. Dagskrá auka aðalfundar skal eftir þörfum vera samkvæmt 17. gr. 

f. Lagabreytingafund getur forseti boðað, að fengnu samþykki stjórnar. Lagabreytingatillögur sem bíða afgreiðslu lagabreytingafundar skulu auglýstar. Til fundarins skal boða með minnst fimm daga fyrirvara og skal dagskrá fundarins vera eftirfarandi:

i. Setning fundar. 

ii. Kosning um fundarstjóra og -ritara lagabreytingafunds. 

iii. Afstaða tekin til kosningaréttar fundargesta. 

iv. Lagabreytingar.

v. Önnur mál.

vi. Fundarslit.

g. Stjórn skal heimilt að leiðrétta augljósar stafsetningavillur eða misritanir í lögum þessum utan aðalfundar og lagabreytingafundar. Haldið skal utan um breytingar og þær kynntar á aðal- eða lagabreytingafundi.

20. gr - Stórfundir

a. Gagnkvæm upplýsingaskylda skal ríkja á milli Stúdentaráðsliða, stjórnar Röskvu og annarra félaga. 

b. Sameiginlegir stórfundir skulu haldnir reglulega, mánaðarlega hið minnsta. 

c. Stórfundur mótar stefnu Röskvu í öllum helstu málum og fyrir hann skal leggja ágreiningsmál sem lög þessi mæla ekki á annan veg um. 

d. Forseti samtakanna boðar stórfundi með minnst sólarhrings fyrirvara. 

e. Oddviti í Stúdentaráði getur krafist stórfundar með viku fyrirvara.

f. Kosningarrétt hafa þeir sem skráðir voru í samtökin sólarhring fyrir fundinn.

 

V. KAFLI - KOSNINGAR TIL STÚDENTA- OG HÁSKÓLARÁÐS

21. gr - Kosningastjórn

a. Stjórn samtakanna, í samráði við kosningastjóra og oddvita samtakanna, skipar fimm til sjö aðila í kosningastjórn eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. 

b. Í kosningastjórn skulu sitja tveir kosningastjórar, forseti og gjaldkeri stjórnar ásamt oddvita. 

c. Kosningastjórn þarf að hafa samráð við ritstjórn og úthringistjóra. 

22. gr - Uppstillinganefnd 

a. Skipa skal uppstillinganefnd eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Í henni skulu eiga sæti tveir aðilar úr kosningastjórn, tveir aðilar tilnefndir af Stúdentaráðsliðum og þrír aðilar tilnefndir af stjórn. 

b. Stórfundur samtakanna getur komið sér saman um breytt fyrirkomulag á skipan uppstillinganefndar. 

c. Þeir sem sitja í nefndinni skulu ekki taka sæti á framboðslista samtakanna, að undanskildum heiðurssætum. 

d. Hlutverk uppstillinganefndar er að stilla upp á framboðslista samtakanna. Óski félagsmaður eftir að tilnefna frambjóðanda skal honum gert kleift að koma ósk sinni á framfæri við uppstillinganefnd. 

23. gr - Tilnefningar Röskvu til réttindaskrifstofu Stúdentaráðs

a. Forseta- og varaforsetaefni, tilnefningar Röskvu til hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa í Stúdentaráði skulu kosin á aðalfundi. 

b. Oddviti Röskvu í Stúdentaráði skal einnig kosinn á aðalfundi. 

c. Atkvæðisrétt hafa þau sem hafa atkvæðisrétt skv. 15. gr. Kosningar fara fram skv. 18. gr. 

 

VI.  KAFLI - SKIPAN Í FASTANEFNDIR STÚDENTARÁÐS

25. gr - Skipan í fastanefndir Stúdentaráðs

a. Skipan í fastanefndir fyrir hönd Röskvu skal ákveðin á sérstökum fundi samtakanna sem haldinn skal á milli aðalfundar Röskvu og skiptafundar Stúdentaráðs. Takist ekki að skipa í allar stöður innan nefnda skipar oddviti Röskvu í Stúdentaráði, í samráði við Stúdentaráðsliða, fulltrúa Röskvu í þá nefnd. 

b.  Kosið skal á eftirfarandi hátt:

i. Hver kjósandi hefur 1 og ½ atkvæði. Merkt er 1 við það framboð sem kjósandi vill gefa 1 stig og 2 við það framboð sem kjósandi vill gefa ½ stig.

ii. Stigahæsti frambjóðandinn er forsetaefni Röskvu í þeirri nefnd sem átt er við. 

c. Þeir tveir frambjóðendur sem hljóta flest atkvæði hljóta jafnframt tilnefningu Röskvu í nefndir Stúdentaráðs. 

d. Séu 1-2 Stúdentaráðsliðar í framboði hljóta þeir forgang skv. lögum SHÍ. Séu fleiri en tveir Stúdentaráðsliðar í framboði skal kosið á milli þeirra. Sjálfkjörið er í embætti berist engin mótframboð. 

e. Atkvæðisréttur er skv. 15. gr. Óski fundargestur eftir leynilegri kosningu í embætti skal verða við þeirri ósk.

26. gr - Skipan í sviðsráð Stúdentaráðs

a. Skipan í sviðsráð fyrir hönd Röskvu skal ákveðin á sérstökum fundi samtakanna sbr. 25.gr. a. Takist ekki að skipa í allar stöður innan sviðsráða skipar oddviti Röskvu í Stúdentaráði, í samráði við Stúdentaráðsliða, fulltrúa Röskvu í það sviðsráð.

b.  Kosning um fulltrúa Röskvu í sviðsráð:

Kjósa skal jafn marga fulltrúa í sviðsráð og Röskva hefur hlotið samkvæmt útreikningum Stúdentaráðs, í samræmi við lög ráðsins. Dæmi: Leiði niðurstöður kosninga og útreikningar Stúdentaráðs til þess að Röskva hljóti þrjá fulltrúa í sviðsráð, skal kjósa um 3 aðila með eftirfarandi aðferð: 

Merkt er 1 við það framboð sem kjósandi vill gefa 1 stig, 2 við það framboð sem kjósandi vill gefa ½ stig, 3 við það framboð sem kjósandi vill gefa ⅓ stig og 4 við það framboð sem kjósandi vill gefa ¼ stig. 

c. Þeir frambjóðendur sem hljóta flest atkvæði hljóta jafnframt tilnefningu Röskvu í sviðsráð Stúdentaráðs.

d. Séu Stúdentaráðsliðar í framboði hljóta þeir forgang skv. lögum SHÍ. Séu fleiri Stúdentaráðsliðar í framboði en sæti sem eru í boði skal kosið á milli þeirra. Sjálfkjörið er í embætti berist engin mótframboð. 

e. Atkvæðisréttur er skv. 14. gr. Óski fundargestur eftir leynilegri kosningu í embætti skal verða við þeirri ósk. 

 

VII. KAFLI - ÝMIS ÁKVÆÐI

27. gr - Slit samtakanna

a. Ákvörðun um slit samtakanna verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (⅔) atkvæða. Fundurinn skal einnig taka ákvörðun um hvað skal gera við eignir og skuldir samtakanna. 

28. gr - Gildi laga

a. Lög þessi öðlast þegar gildi. Lagabreytingar á aðal-, auka- og lagabreytingafundi öðlast gildi þegar í stað, nema annað sé tekið fram. 

29. gr - Heimildaskrá yfir stjórnir, Stúdentaráðsliða og fulltrúa Röskvu á skrifstofu SHÍ

a. Stjórn Röskvu skal sjá til þess fyrir aðalfund á vorönn að skrá yfir stjórnarmenn, Stúdentaráðsliða og einstaklinga á skrifstofu SHÍ fyrir hönd Röskvu sé komið á heimasíðu Röskvu. Þar að auki skal stjórn Röskvu halda utan um heimildaskjal sem geymir lista yfir fyrri stjórnir, Stúdentaráðsliða og einstaklinga á skrifstofu SHÍ fyrir hönd Röskvu. 
 

Síðast breytt á aðalfundur Röskvu 13. apríl 2021

bottom of page