top of page

FJÁRMÁLA- OG ATVINNULÍFSMÁL

Röskva vill koma í veg fyrir að fjárhagstaða stúdenta hindri jafnan aðgang að námi. Um þriðjungur íslenskra háskólanema metur fjárhagsstöðu sína annaðhvort alvarlega eða mjög alvarlega, sem er langt umfram meðaltal háskólanema í Evrópu (Eurostudent linkur). Fjárhagslegar áhyggjur eru ein helsta ástæða þess að íslenskir námsmenn taka sér hlé frá námi. Tenging háskólanáms við atvinnulíf ætti ekki að stjórnast af skammtíma eftirspurn atvinnulífsins, heldur hafa það að markmiði gera stúdenta tilbúna fyrir fyrirséðar breytingar á vinnumarkaði, s.s fjórðu iðnbyltinguna.

-ATVINNUMÁL-

Endurheimt réttindi stúdenta til atvinnuleysisbóta

Röskva krefst að stúdentum sé tryggður réttur til atvinnuleysisbóta svo stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar eftir atvinnumissi hafi kost á því jafnt við annað vinnandi fólk. Þennan rétt höfðu stúdentar fram að lagabreytingu sem tók gildi í ársbyrjun 2010. Það er jafnréttismál að lagaumhverfið sé því leiðrétt með stúdenta í huga. 

 

ÞVERFAGLEGUR DAGUR

Röskva telur að öll svið Háskóla Íslands geti tekið Heilbrigðisvísindasvið til fyrirmyndar þegar kemur að þverfaglegu samstarfi. Halda mætti þverfaglegan dag á öllum sviðum þar sem stúdentar úr mismunandi deildum koma saman og vinna saman, líkt og gerist oft þegar fólk er komið út í atvinnulífið.

FRUMKVÖÐLASETUR

Gulleggið og fleiri frumkvöðlaverkefni sem Háskóli Íslands er nátengdur er af hinu góða. Við teljum að HÍ geti gert enn betur. Við leggjum til að aðstaða sé til staðar fyrir frumkvöðla til að vinna að sínum hugmyndum og þróa nánar. Frumkvöðla- og nýsköpunarnefnd SHÍ gæti til dæmis haldið utan um útleigu og skráningum fyrir svæðið.

UPPLÝSANDI VIÐBURÐIR – HÖLDUM Í ÞEKKINGU

Auka mætti upptökur af fræðsluviðburðum tengdum fjármálum og atvinnulífi í skólanum. Upptökur af gagnlegum viðburðum mættu standa stúdentum til boða eftir viðburði. Hvetja mætti kennara til að nýta sér slíkt til að auka tenginu við atvinnulífið í kennslu.

STARFSNÁM SKAL VERA LAUNAР

Röskva telur að stefna eigi að því að auka framboði af starfsnámi og skal liggja fyrir í upphafi hverju sinni hvernig starfsnámið er metið til eininga. Auk þess ætti að stefna að því í hvívetna að starfsnám fyrir fyrirtæki, sem rekin eru með hagnaðarsjónarmiði, skuli vera launað. 

 

FRÍR MATUR Í STARFSNÁMI 

Röskva vill að stúdentum í starfsnámi sé boðið upp á frían mat í starfsnámi inni á stofnunum, sbr. Landspítala og skóla. Starfsnám er nú þegar ólaunað og það er ólíðandi að stúdentar þurfi að greiða með sér í starfsnámi með því að kaupa mat á hverjum degi á stofnuninni.

STAÐA ERLENDRA NEMA Í FJÁRMÁLA- OG ATVINNULÍFSMÁLUM

Röskva telur að stöðu erlendra nema þegar kemur að fjármála- og atvinnulífsmálum megi bæta umtalsvert. Kynningar og upplýsingar ættu að vera aðgengilegri á ensku. Þá ætti að auka fjárhagslegan stuðning við erlenda nema sem gjarnan eru í erfiðri fjárhagslegri stöðu. Röskva krefst þess að erlendir nemar með námsmannaleyfi, sem falla utan Schengen svæðisins, eigi rétt á að vinna í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli. Röskva krefst þess sömuleiðis að umsóknarferlið vegna atvinnuleyfis verði endurbætt svo að erlendir nemar eigi auðveldara með að hefja störf eins fljótt og auðið er. 

RÉTTINDI STÚDENTA HJÁ VERKALÝÐSFÉLÖGUM

Röskva telur að réttindi stúdenta hjá verkalýðsfélögum ættu að vera sýnilegri. Stúdentar vinna sér oft inn réttindi yfir sumarvinnu en eru ekki nægilega upplýstir um hvað í þeim felst. Röskva vill enn fremur að stúdentar fái aukinn aðgang að sjóðum verkalýðsfélaga. Í mörgum tilvikum eru námsmenn aðeins á vinnumarkaði í nokkra mánuði ársins. Á þeim tíma greiða þeir stéttarfélagsgjöld en ná ekki að öðlast rétt til styrkja úr sjóðum verkalýðsfélaganna. Nú þegar hefur Röskva hafist handa við þessa vinnu.

BJÓÐA ÆTTI UPP Á LOKAVERKEFNI Í SAMSTARFI VIÐ FYRIRTÆKI

Röskva telur að Háskóli Íslands þurfi að gefa í þegar kemur að tengingu við atvinnulífið. Eitt af því sem hægt væri að gera er að auka samstarf stúdenta við fyrirtæki þegar kemur að rannsóknum og lokaverkefnum. 

 

KYNNING Á ATVINNUTÆKIFÆRUM

Röskva vill að möguleikar að loknu námi verði kynntir á hverju sviði fyrir sig til þess að undirbúa stúdenta fyrir atvinnulífið. Til dæmis væri hægt að fá fólk með sömu menntun í ólíkum störfum til að halda kynningar á sínum störfum.

TENGSLATORG

Röskva vill að Tengslatorg verði bætt til muna. Hlutverk þess er að tengja saman stúdenta og atvinnulífið en til þess að það skili tilskildum árangri þarf að tryggja að þau störf sem auglýst eru séu hugsuð fyrir fólk í námi. Tækifæri til þess að starfa á vettvangi getur stórbætt þekkingu nema og tengslamyndun. Sem dæmi væri hægt að auðvelda aðgang með því að sía atvinnuauglýsingar eftir sviðum, deildum eða starfskröfum. Að auki þarf að gera Tengslatorg aðgengilegra á fleiri tungumálum. 

UNDIRBÚNINGUR FYRIR FRAMTÍÐINA 

Á komandi árum mun verða mikil breyting á vinnumarkaðnum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Röskva vill að háskólinn sé meðvitaður um þá staðreynd að vinnumarkaður sem núverandi og framtíðar stúdentar útskrifast á mun taka breytingum í gegnum starfstíð þeirra og því mikilvægt að stúdentar öðlist fjölbreytta þekkingu í námi. Þá er mikilvægt að öll vinna að aukinni tengingu við atvinnulíf sé unnin með það í huga.

EFLUM NÝSKÖPUN Á ÖLLUM SVIÐUM 

Röskva vill að stúdentar af öllum sviðum háskólans fái aukið aðgengi að fjármagni til nýsköpunarverkefna. Röskva vill að að stúdentar geti valið að fara í þverfaglegan valáfanga í nýsköpun innan veggja Háskóla Íslands.

 

STARFSNÁM OG STARFSÞJÁLFUN STÚDENTA

 

Röskva telur mikilvægt að stúdentar í námi sem krefst starfsþjálfunar fái greitt fyrir vinnuframlag sitt, en stúdentar eiga ekki að vera notaðir sem ókeypis vinnuafl.

OPINBERA HÁSKÓLAKERFIÐ Í FORGANG

Röskva gagnrýnir það fyrirkomulag að ríkissjóður greiði jafnt með öllum stúdentum, hvort sem þeir sækja nám í einkareknum eða opinberum háskólum. Einkareknir háskólar sem innheimta skólagjöld frá nemendum sínum eiga ekki að þurfa jöfn fjárframlög frá ríkinu líkt og opinberir háskólar. Opinberar stofnanir eru annars eðlis en þær einkareknu og því ber ríkisstjórn að setja starfsemi ríkisrekinna háskóla í forgang.

bottom of page