top of page

LÁNASJÓÐASMÁL

Lánasjóðsmál eru eitt mikilvægasta jafnréttismál stúdenta. Menntasjóður námsmanna þjónar ekki hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður og vill Röskva að úr því verði bætt. Lögum um Menntasjóð námsmanna er ætlað að auka jafnrétti til náms óháð efnahag en Röskva telur að því jafnrétti sé enn ekki náð. Til þess að tryggja jafnan aðgang að námi þarf að efla stuðning við stúdenta, bæta þjónustu sjóðsins og tryggja að litið sé á fjármagn sem stúdentar fá til framfærslu sem fjárfestingu í menntun, sem er öllu þjóðfélaginu til bóta.

-ÞJÓNUSTA MENNTASJÓÐS NÁMSMANNA-

BÆTT ÞJÓNUSTA

Röskva telur nauðsynlegt að bæta þjónustustig Menntasjóðs námsmanna. Þörf er á auknu aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf. Dæmi um að útgreiðslu námslána seinki ættu að heyra sögunni til. Röskva telur bestu leiðina til bættrar þjónustu vera reglulegar þjónustukannanir meðal lántaka og greiðenda. Niðurstöður slíkra kannana ætti að birta opinberlega og nýta til að gera þjónustu sjóðsins og kynningarefni notendavænna. Niðurstöðurnar eigi einnig að nýtast við endurskoðun laganna.

 

SKIPTINEMAR Á NÁMSLÁNUM

Skipulag anna er gjarnan háttað öðruvísi í skólum erlendis en tíðkast hér á landi, sem gerir það til dæmis að verkum að annir eru búnar of snemma eða seint fyrir viðmið sjóðsins. Röskva telur nauðsynlegt að Menntasjóður námsmanna taki tillit til þessa svo að stúdentar geti sótt skiptinám án þess að lánsréttur þeirra skerðist.

 -GRUNNFRAMFÆRSLA OG FRÍTEKJUMARK-

HÆRRI GRUNNFRAMFÆRSLA

Framfærsla Menntasjóðs námsmanna verður að hækka. Að mati Röskvu á grunnframfærsla að vera endurskoðuð til hækkunar á ári hverju að lágmarki í samræmi við verðlagsþróun. 

LÁN VEGNA HÚSNÆÐIS

Nauðsynlegt er að endurskoða lán vegna húsnæðiskostnaðar hjá Menntasjóð námsmanna. Árið 2022 búa einungis um 10% stúdenta Háskóla Íslands á Stúdentagörðum. Því þarf að taka mið af leiguverði á almennum markaði og vísitölu leiguverðs við ákvörðun lánsupphæða vegna húsnæðis. 

 

HÆKKUN FRÍTEKJUMARKS

Röskva krefst þess að frítekjumarkið sé endurskoðað til hækkunar árlega og að það fylgi ávallt þróun launavísitölu á Íslandi hið minnsta. Sé ætlast til þess að stúdentar vinni með námi til að geta framfleytt sér, líkt og nú, er eðlileg krafa að skerðingar námslána vegna tekna umfram frítekjumarks séu lágar. Röskva telur því 45% tekjuskerðingu líkt og nú vera of háa fyrir kerfi sem er þannig uppbyggt að stúdentar neyðast til að vinna með námi.

FJÁRFESTING Í MENNTUN

Röskva telur að sú pólitíska umræða sem skapar grundvöll fyrir breytingum á námslánakerfinu eigi enn eftir að fara fram. Sú umræða fjallar um hversu mikið eigi að styrkja fólk til náms eða nánar tiltekið hve miklu hið opinbera á að verja í fjárfestingu í menntun. Röskva krefst þess að fallið verið frá sjálfbærnisjónarmiðum sjóðsins. Ljóst er að fjárfesting í menntun er ein sú besta fjárfesting sem þjóð getur gert og skilar hún sér margfalt til baka. Lykilþáttur í því er að tryggja aðgengi að menntun og skipar þar námslánakerfið stórt hlutverk. 

NIÐURFELLING HÖFUÐSTÓLS

Í kjölfar gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna fá þeir stúdentar sem ljúka námi á tilsettum tíma 30% niðurfellingu á höfuðstóli láns síns. Röskva vill að niðurfellingin verði að minnsta kosti 40% líkt og í Noregi. Einnig er mikilvægt að stúdent þurfi ekki að sækja sérstaklega um niðurfellinguna ef viðkomandi uppfyllir öll skilyrði, hún á að fylgja láninu án hindrana en núverandi fyrirkomulag þykir óþarflega flókið. Þá leggur Röskva til að fyrirkomulag styrkveitinga verði alfarið eins og í Noregi en þar er veitt 25% niðurfelling á höfuðstól námsláns í lok hverrar annar fyrir þær einingar sem nemandi lýkur. Þar að auki bætist við 15% niðurfelling á höfuðstól námsláns ljúki nemandi námi innan tilsettra marka.

RÖSKVA MÓTMÆLIR ÓÖRUGGU VAXTAUMHVERFI

Röskva krefst þess að vaxtaþak á bæði verðtryggðum og óverðtryggðum lánum frá Menntasjóði námsmanna verði lækkað til muna. Samkvæmt lögum um Menntasjóðinn er vaxtaþak 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. Þær breytingar sem voru gerðar með tilkomu laga um Menntasjóð námsmanna höfðu í för með sér aukna óvissu um lánakjör og greiðslubyrði. Röskva krefst að vaxtaþakið verði fært aftur í fyrra horf og verði 1% líkt og það var áður á lánum frá LÍN.

TEKJUTENGING AFBORGANA

Með lögum um Menntasjóð námsmanna var fyrirkomulagi tekjutengingar breytt svo aðeins þau sem ljúka námi fyrir 36 ára aldur eigi rétt á henni. Röskva telur nauðsynlegt að allir lántakar hafi möguleikann á tekjutengdum afborgunum, svo sjóðurinn geti uppfyllt hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður. Röskva telur að hér sé verið að draga úr því að eldri einstaklingar hefji háskólanám sem grefur undan hugmyndum um símenntun í fjórðu iðnbyltingunni. Röskva telur að þetta muni hafa neikvæð áhrif á félagslegan hreyfanleika og skerða jafnrétti til náms.

ENDURGREIÐSLUR NÁMSLÁNA

Röskva krefst þess að fresturinn sem gefinn er frá námslokum að upphafi afborgana sé lengdur. Veita þarf stúdentum nægilegt svigrúm til að koma sér á fót að námi loknu, og sömuleiðis verður að vera möguleiki að taka sér hlé frá lántöku, t.a.m. til þess að ákveða framhaldsnám. Fresturinn er eins og stendur 1 ár, en Röskva beitir sér fyrir því að hann verði lengdur í a.m.k. 2 ár.

ÁLAG VEGNA AFFALLA

Röskva mótmælir því að gert sé ráð fyrir vaxtaálagi vegna væntra affalla. Þannig er kostnaði vegna þeirra lána sem ekki er greitt af velt yfir á greiðendur sem standa skil á sínum afborgunum. Röskva telur að ríkið eigi að bera áhættuna af afföllum í stað þess að auka vaxtagreiðslur þeirra sem borga af sínum lánum.

 

LÁNSHÆFAR EININGAR

Röskva leggst gegn því að hámark lánshæfra eininga sé fastestar í 480 ECTS einingum samkvæmt lögum. Ófyrirséð er hvernig atvinnulíf og menntakerfið breytist til framtíðar og því mikilvægt að sveigjanleiki sé til staðar. Röskva vill að í lögum um Menntasjóð námsmanna sé sett lágmark á fjölda lánshæfra eininga en ekki hámark. Miðað við úthlutunarreglur 2022-2023 gæti stúdent ekki fengið lán að fullu fyrir grunnnámi tvisvar sinnum. Auka þarf svigrúm svo námsfólk geti ráðstafað lánshæfum einingum eftir námsferli þeirra. 

 

BARNASTYRKUR

Röskva fagnar því að með lögum um Menntasjóð námsmanna hafi verið tekin upp styrkur vegna framfærslu barna og meðlagsgreiðslna til foreldra. Með þessum breytingum væri foreldrum því ekki gert að skuldsetja sig meira en barnlausum til að geta menntað sig. Nauðsynlegt er að komið sé til móts við fjölmennan hóp foreldra í námi með þessum hætti. Þar að auki krefst Röskva  þess að allir foreldrar fái styrk vegna framfærslu barna í námi, óháð því hvort lán er tekið. 

SKIPAN Í STJÓRN MENNTASJÓÐS NÁMSMANNA

Röskva telur varhugavert að lánasjóðsfulltrúi SHÍ, fulltrúi lang stærsta háskóla landsins, eigi ekki lengur fast sæti í stjórn sjóðsins samkvæmt lögum um Menntasjóð námsmanna. Röskva krefst þess að Lánasjóðsfulltrúi SHÍ fái aftur lögbundið sæti í stjórn menntasjóðsins.

REGLULEG ENDURSKOÐUN MENNTASJÓÐS NÁMSMANNA

Röskva leggur til lögbundna endurskoðun á Menntasjóðinum á þriggja ára fresti. Þannig er hægt að ganga úr skugga um að hagsmunir stúdenta á hverjum tíma séu hafðir í fyrirrúmi. Röskva telur nauðsynlegt að stúdentar eigi sæti við borðið við þessa endurskoðun.

UMSÓKNARFRESTUR

 

Umsóknarfrestur samkvæmt úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna er snemma á árinu. Slíkt hefur í för með sér að námsfólk á erfitt með að taka upplýsta ákvörðun varðandi lántöku. Því krefst Röskva þess að umsóknarfresturinn taki mið af úrsagnarfresti námskeiða.

bottom of page