top of page

ALÞJÓÐAMÁL

Alþjóðlegir nemendur við Háskóla Íslands eru fjölbreyttur hópur og skipa þeir stóran sess innan háskólans. Alþjóðlegir nemendur ættu því að hafa sömu tækifæri og aðrir nemendur við háskólann og vill Röskva tryggja að aðgengi þeirra að akademísku- og félagslífi sé til jafns við aðra nemendur.

ALÞJÓÐAFULLTRÚI SHÍ

Erlendir nemar við Háskóla Íslands skipa fjölbreyttan hóp en aðeins fjórðungur þeirra eru skiptinemar. Hins vegar styður Háskóli Íslands nær eingöngu við bakið á grunn- og skiptinemum, þar sem upplýsingar og stuðningur miðast að þeim, með þeim afleiðingum að stóran hóp erlendra nema skortir utanumhald og aðstoð. Þessu vill Röskva breyta. Röskva fagnar því að stöðu Alþjóðafulltrúa hafi verið bætt við á Réttindaskrifstofu SHÍ en hann hefur sinnt hlutverki trúnaðarmanns erlendra stúdenta á sínu fyrsta starfsári. 

ÞÝÐING EFNIS FRÁ HÁSKÓLANUM

Röskva telur mikilvægt að allt efni frá Háskóla Íslands sé þýtt á ensku hið minnsta. Fyrstu skrefin telur Röskva vera að þýða allt efni á heimasíðu skólans og samfélagsmiðlum hans.

MÖGULEIKAR SKIPTINÁMS

Skiptinám er mikilvæg leið til þess að að víkka sjóndeildarhring stúdenta. Röskva vill að nemendur allra deilda Háskólans hafi kost á því að fara í skiptinám erlendis. Röskva hvetur Háskólann til að kynna betur möguleika til skiptináms og hvetja alla til að fara í skiptinám, alveg óháð stöðu, t.d. barnafjölskyldur. Til dæmis væri hægt að auka aðstoð í formi hærri styrkja.

ÞÁTTTAKA ALÞJÓÐLEGRA NEMA Í RÖSKVU

Í Röskvu starfar alþjóðafulltrúi sem fer fyrir alþjóðanefnd Röskvu og er jafnframt rödd alþjóðanema sem á að tryggja að þeirra þörfum sé mætt og tala þeirra máli. Alþjóðlegir nemar eru sérstaklega hvattir og studdir til þess að gegna embætti alþjóðafulltrúa Röskvu sem og sitja í alþjóðanefnd Röskvu. Síðastliðin tvö ár hefur alþjóðafulltrúi starfað innan Röskvu og er það því mikilvægur pallur fyrir alþjóðlega nema til að nýta sér til að láta rödd sína heyrast.

 

ÚTGEFIÐ EFNI

Viljum vera aðgengileg og að stuðla að þátttöku alþjóðanema er eitt af þeim atriðum að hafa upplýsingar á ensku.

MENNING

Við miðum að því að mæta áhuga alþjóðanema á íslenskri menningu og teljum að ein leið til að kynna íslenska menningu sé að halda viðburði fyrir alþjóðlega nemendur. Þessir viðburðir skulu vera eins fjölbreyttir og mögulegt er og skal sérstaklega reyna að koma alþjóðlegum stúdentum inn í málefnastarf innan háskólans.

SKIPTINEMAR OG ALÞJÓÐANEMENDUR

Við miðum að því að taka mið af þeirri staðreynd að sumir stúdentar eru hér í eina önn og aðrir til lengri tíma. Þetta felur m.a. í sér að reyna að virkja alþjóðlega nema sem eru hér í meira en eina önn til þess að taka virkari þátt í félagslífi skólans t.d. með því að hvetja þá til að bjóða sig fram í nefndir eða skipuleggja stúdentaviðburði.

GJALDFRJÁLS ÍSLENSKUKENNSLA 

Röskva krefst þess að alþjóðanemendur fái aðgang að valfrjálsri íslenskukennslu, gjaldfrjálst. Tungumálaörðugleikar geta verið helstu félagslegu hindranir sem alþjóðanemar takast á við, og gera þeim erfiðara fyrir að taka þátt í akademísku- og félagslífi. Þess vegna hvetur Röskva Háskóla Íslands til þess að bjóða upp á gjaldfrjálst  inngangsnámskeið í íslensku fyrir alþjóðanema á hverri önn. Röskva fagnar því að hægt sé að læra íslensku sem annað mál, en vill sjá möguleikann á að einnig sé hægt sé að sækja minni námskeið til að gefa alþjóðanemum kost á að bæta við sig íslenskukunnáttu.

STUÐNINGUR VIÐ FÉLAGSLÍF ALÞJÓÐANEMENDA

 

Háskóli Íslands ætti að útbúa ramma til þess að styðja við félagslíf meðal alþjóðanemenda. Röskva telur að heilbrigt félagslíf sé ein grunnforsenda velferðar í akademísku umhverfi. Alþjóðanemendur lenda oft utan jaðra félagslífs Háskólans. Námsráðgjafar ættu því að geta séð alþjóðanemendum fyrir upplýsingum um félagslíf og viðburði á vegum skólans ásamt alþjóðafulltrúi og alþjóðanefnd Stúdentaráðs. Háskólinn ætti einnig að tryggja að alþjóðlegir nemendur hafi nægilegan aðgang að félagslífi skólans til þess að samlagast Háskólasamfélaginu.

 

GAGNSÆTT UMSÓKNARFERLI 

Alþjóðanemendur ættu að hafa aðgang að gagnsæju umsóknarferli. Öll viðeigandi gögn og formsatriði ættu að vera aðgengileg og til staðar á ensku. Háskólinn ætti að auðvelda alþjóðanemendum að nálgast nauðsynlegar upplýsingar sem þau varða, áður og á meðan á dvöl þeirra stendur.

ÞJÓNUSTA OG UPPLÝSINGAR Á ENSKU 

Háskóli Íslands ætti að bjóða upp á alla þjónustu fyrir nemenda á ensku líkt og á íslensku. Líkt og staðan er núna þá er þessu sérstaklega ábótavant þegar kemur að vefsíðu Háskólans þar sem lítið af efninu á henni er til á ensku. Þá er sérstaklega mikilvægt að öll skjöl tengd umsóknarferlinu séu aðgengileg á ensku.

 

AÐGANGUR AÐ HÚSNÆÐI 

Röskva krefst þess að Háskóli Íslands tryggi alþjóðlegum nemendum greiðan aðgang að húsnæði meðan á dvöl þeirra stendur. Alþjóðlegir nemendur skortir tengingar og öryggisnet íslenskra nemenda. Það gerir húsnæðisleit erfiðari. Þar af leiðandi ætti Háskólinn að sjá alþjóðlegum nemendum fyrir auknum stuðning þegar kemur að húsnæðismálum. Húsnæðismarkaður á Íslandi er erfiður og alþjóðlegir nemendur eru óvanir honum og óundirbúnir í mörgum tilvikum. Háskólinn ætti því að geta komið til móts við þá. 

AÐGANGUR AÐ VINNUMARKAÐI

 

Háskóli Íslands ætti að bjóða alþjóðlegum nemendum upp á upplýsingar um vinnumarkaðinn á Íslandi, t.d. með því að veita þeim upplýsingar um hvort og hversu mikið þau mega vinna, hvar má finna störf auglýst til umsóknar og benda þeim á viðeigandi þriðja aðila líkt og verkalýðsfélög.

AUKIN TENGSL VIÐ ERLENDA HÁSKÓLA

Röskva telur að nám erlendis geti spilað mikilvægt hlutverk í námsferli nemenda og hvetur háskólann til að auka tengsl við erlenda skóla; bæði með kennara- og nemendaskiptasamningum. Röskva vekur máls á því að þetta eigi sérstaklega við um allt framhaldsnám hjá Háskóla Íslands. Röskva vill áframhaldandi samstarf Stúdentaráðs Aurora og SHÍ með það að markmiði að bæta þjónustu við stúdenta og efla starf SHÍ. Röskva hvetur háskólann til að kynna betur starfsemi Aurora fyrir stúdentum og þau tækifæri sem samstarfið býður upp á.

RÉTTUR ALÞJÓÐANEMA Í NÁMSMATI

Röskva krefst þess að alþjóðanemar og aðrir stúdentar sem eiga erfitt með akademíska íslensku geti sótt um lengri próftíma, prófspurningar á ensku og notkun orðabókar í lokaprófum. Röskva krefst þess jafnframt að nemendum standi til boða að fá og skila verkefnum á ensku.

AÐGERÐIR TIL AUKINNAR HÁSKÓLAMENNTUNAR FÓLKS AF ERLENDUM UPPRUNA

Röskva vill að Háskóli Íslands sýni samfélagslega ábyrgð og auðveldi fólki af erlendum uppruna aðgang að háskólasamfélaginu. Verkefni á borð við Sprett skulu vera í forgangi hjá HÍ. Það væri hægt að gera í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið með því að t.d. vinna að undirbúningi og kynningu á háskólanámi með hliðsjón af stöðu þeirra í menntakerfinu á Íslandi.

bottom of page