JAFNRÉTTISMÁL
Rauði þráðurinn í starfi Röskvu er hugsjónin um jafnrétti allra til náms, óháð kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, efnahag, trú, uppruna, búsetu, fötlun, veikindum, félagslegri stöðu eða aðstæðum að öðru leyti. Mismunun á grundvelli þessara þátta er viðvarandi og ótal hindranir standa í vegi fyrir jöfnum tækifærum fólks. Mikilvægt er að efla jafnréttisvitund háskólasamfélagsins sem og samfélagsins í heild og útrýma þarf staðalímyndum kynjakerfisins, og samfélagslegu og kerfisbundnu misrétti. Röskva vill tryggja að hvergi sé brotið á réttindum stúdenta við Háskóla Íslands.
-GEÐHEILBRIGÐISMÁL-
FLEIRI SÁLFRÆÐINGA
Röskva vill halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu innan HÍ og mun halda áfram að berjast fyrir fjölgun sálfræðinga sem starfa við skólann, en þeim hefur fjölgað úr einum í þrjá á síðustu tveimur árum með Röskvu í meirihluta.
FLEIRI MEÐFERÐARÚRRÆÐI
Röskva krefst þess að meðferðarúrræðum fjölgi og stúdentar hafi aðgang að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu svo sem flest njóti góðs af, til dæmis stuðningshópar undir handleiðslu sálfræðings, hugræn atferlismeðferð, einstaklingsviðtöl og fleira.
SKÓLAHJÚKRUNARFRÆÐINGUR
Röskva vill að hjúkrunarfræðingur starfi innan veggja háskólans. Hann gæti meðal annars sinnt fræðslu, forvörnum og snemmbúnum inngripum þegar kemur að andlegri og líkamlegri heilsu stúdenta.
HEILSUGÆSLA Á HÁSKÓLASVÆÐINU
Röskva vill heilsugæslu fyrir stúdenta í nærumhverfi þeirra, þar sem aðgangur að heildrænni heilbrigðisþjónustu er tryggður.
AUKINN SVEIGJANLEIKI Í NÁMSMATI
Stúdentar eru eins ólíkir og þeir eru margir. Röskva vill að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna nemenda með meiri sveigjanleika í námsmatsfyrirkomulagi, sem dæmi hentar ekki öllum að mæting sé metin til einkunnar.
-HINSEGINMÁL-
RÖSKVA VINNUR AÐ MÁLEFNUM HINSEGIN FÓLKS (LGBTQIA+)
Röskva telur brýnt að hætta að ganga út frá tvískiptu kynjakerfi og sís-gagnkynhneigðarhyggju. Mikilvægt er að auka samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks, þá sérstaklega Q-félags hinsegin stúdenta. Þessi vinna er afar mikilvæg þar sem menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum, mismunun, öráreiti og fordómum.
RÖSKVA VILL KYNLAUS KLÓSETT
Áfram þarf að berjast fyrir kynlausum klósettum. Öll eiga að upplifa öryggi í háskólanum og líða vel. Að geta farið á klósettið í skólanum er mikilvægur þáttur í því.
FJÖLBREYTTARI KYNSKRÁNING
Hlutlaus kynskráning hefur nú loksins verið fest í lög og því á Háskóli Íslands að leyfa hlutlausa kynskráningu.
KYNLAUST MÁLFAR OG BÆTT HINSEGIN ORÐRÆÐA
Háskólinn, starfsfólk hans og nemendur eiga að virða persónufornöfn einstaklinga. Notkun persónufornafna sem falla ekki undir kynjatvíhyggjuna, t.d. hán og þau, þurfa að komast í daglega notkun og allt sem háskólinn gefur frá sér ætti að gera ráð fyrir kynlausu málfari. Einnig þarf að koma á þeirri hefð að ávarpa hópa á kynlausan hátt, frekar en í karlkyni, sem dæmi: „öll eru velkomin“ í staðinn fyrir „allir eru velkomnir“.
VALDEFLING HINSEGIN HAGSMUNAFÉLAGA INNAN HÁSKÓLASAMFÉLAGSINS
Röskva vill að háskólasamfélagið beri hinsegin málefni undir hinsegin félög, t.a.m. Q-félagið. Röskva vill hvetja til þess að sú fræðsla sem Q-félagið sér um sé greidd af þeim sem hana panta. Röskva vill því einnig hvetja Háskóla Íslands til að setja á fót fræðslusjóð sem greitt verður úr fyrir hverja framkvæmda fræðslu.
RÖSKVA VILL AÐ HAGSMUNAFULLTRÚI SHÍ GETI TEKIÐ Á MÁLUM SEM VARÐA HINSEGIN STÚDENTA
Röskva vill tryggja að ef upp komi vandamál sem varða hinsegin stúdenta, hafi hagasmunafulltrúi SHÍ þá nauðsynlegu þekkingu á málefnum hinsegin fólks að hann sé í í stakk búinn til að taka rétt og vel á málunum.
SÝNILEIKI HINSEGIN FÓLKS
Röskva vill auka sýnileika hinsegin stúdenta með því að gera ráð fyrir þeim meðal starfsfólks, í námsefni, verkefnum og auglýsingum fyrir háskólann. Auk þess vill Röskva gæta þess að hinsegin fólk sé sýnilegt í störfum Stúdentaráðs og Röskvu.
HINSEGINFRÆÐSLA
Röskva vill að allt starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands fái góðar upplýsingar um hinsegin samfélagið og ætti slík fræðsla að vera hluti af endurmenntun kennara skólans og ætti hún að vera skylda. Hinseginfræðslu er auðvelt að nálgast þar sem bæði Q-félag hinsegin stúdenta og Samtökin ‘78 hafa sinnt slíku starfi, ennfremur er hægt að leita til starfsfólks sem hefur þekkingu á hinsegin málum.
UPPFÆRT NÁMSEFNI
Röskva vill að námsefni sem kveður á um úreltar staðalímyndir, orðræðu og upplýsingar um hinsegin fólk hverfi úr kennslu. Skoða þarf námsefni vel og gæta þess að sagt sé vel og rétt frá málefnum sem tengjast hinsegin fólki í kennsluefninu.
RANNSÓKNIR Á HINSEGIN MÁLEFNUM
Röskva vill hvetja til frekari rannsókna sem snúa að hinsegin einstaklingum og þeirra upplifun, í samráði við hinsegin samfélag Íslands. Röskva vill einnig sjá fleiri áfanga sem fjalla sérstaklega um hinsegin málefni þar sem gætt er að samtvinnun mismunabreyta.
KYNLAUSIR KLEFAR
Mikilvægt er að aðstaða háskólasvæðisins sé aðgengileg fyrir öll óháð kynvitund, þannig að auk kynlausra klósetta séu til staðar kynlausir klefar í háskólaræktinni sem og í nýrri rækt.
-JAFNRÉTTI TIL NÁMS ÓHÁÐ UPPRUNA-
JAFNRÉTTI TIL NÁMS ÓHÁÐ UPPRUNA
Röskva krefst þess að verkefni og próf á ensku standi nemendum til boða óski þeir eftir því, sé ekki möguleiki á því skulu þeir nemendur fá orðabók og lengdan próftíma. Jafnframt skulu nemendur eiga kost á að sækja námskeið í íslensku óháð því hvaða nám þeir stunda eða á hvaða stigi tungumálakunnátta þeirra er.
AÐGERÐIR TIL AUKINNAR HÁSKÓLAMENNTUNAR FÓLKS AF ERLENDUM UPPRUNA
Röskva vill að Háskóli Íslands sýni samfélagslega ábyrgð og auðveldi fólki af erlendum uppruna aðgang að háskólasamfélaginu. Verkefni á borð við Sprett skulu vera í forgangi hjá HÍ og mun Röskva stuðla að því. Það væri hægt að gera í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið með því að t.d. vinna að undirbúningi og kynningu á háskólanámi með hliðsjón af stöðu erlendra nemenda í menntakerfinu á Íslandi.
-KYNJAJAFNRÉTTI-
RÖSKVA KALLAR EFTIR JAFNRÉTTI KYNJANNA
Mikilvægt er að efla jafnréttisvitund háskólasamfélagsins sem og samfélagsins í heild og útrýma þarf staðalímyndum kynjakerfisins, og samfélagslegu- og kerfisbundnu misrétti. Röskva vill vinna með og efla hin ýmsu hagsmunafélögum sem starfa innan Háskólans.
JAFNRÉTTISÁÆTLUN HÁSKÓLA ÍSLANDS
Röskva vill að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands verði undantekningarlaust virt og að hún tryggi raunverulegt jafnrétti innan skólans.
RÖSKVA KREFST JAFNRÉTTISFRÆÐSLU Á HÁSKÓLASTIGI
Kynbundin áreitni og ofbeldi á ekki að líðast innan Háskólans né samfélagsins í heild sinni. Röskva krefst þess að jafnréttisfræðsla verði skylda innan háskólasamfélagsins. Sömuleiðis er það hlutverk Stúdentaráðs og sviðsráða að vekja athygli á Fagráði Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi, en fagráðið þjónustar alla nemendur við Háskóla Íslands.
RÖSKVA VILL EKKI AÐ NEIN NEFND INNAN SHÍ SÉ EINKYNJA OG AÐ NEFNDIR ENDURSPEGLI ÞANN FJÖLBREYTILEIKA SEM ER INNAN SKÓLANS
Röskva vill að nefndir SHÍ endurspegli þann fjölbreytileika sem er innan skólans. Röskva telur mikilvægt að mismunandi raddir kynja fái að heyrast í öllu starfi Stúdentaráðs og fylkingar eigi að stuðla að því þegar skipa á í nefnd. Trans og kynsegin einstaklingum á ekki að vera mismunað á grundvelli kynvitundar sinnar.
RÖSKVA VILL AÐ STUÐLAÐ SÉ AÐ JÖFNUM KYNJAHLUTFÖLLUM Í NEMENDAHÓPUM ALLRA DEILDA HÁSKÓLANS
Verulegur kynjahalli er viðvarandi innan nokkurra deilda Háskólans. Röskva vill að Háskólinn haldi kynningu á þeim deildum í öllum framhaldsskólum landsins til þess að leiðrétta skekkjuna. Í öllu kynningarefni sem og námsefni skal unnið að því að sýna öll kyn jafnt að störfum. Einnig þarf að passa upp á að kynjahlutföll á Háskóladaginn, í Háskólaherminum og öðrum slíkum kynningum, séu jöfn.
RÖSKVA VILL JAFNARI KYNJASKIPTINGU KENNARA INNAN DEILDA HÁSKÓLA ÍSLANDS
Því hærra sem er farið upp metorðastigann innan deilda Háskólans, því meiri er kynjahallinn körlum í hag. Á þessu vill Röskva vekja athygli og að háskólinn fari í átak til að sporna við slíkum halla með það að markmiði að tryggja jöfn kynjahlutföll og auka margbreytileika meðal starfsfólks og innan deilda skólans.
RÖSKVA VINNUR AÐ MÁLEFNUM HINSEGIN FÓLKS (LGBTQIA+)
Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar að tvískiptu kynjakerfi og sís-gagnkynhneigðarhyggju. Auka þarf samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra.
RÖSKVA VILL TÍÐARVÖRUR Á ÖLL KLÓSETT
Tíðarvörur eiga að vera enn aðgengilegri, til jafns við aðrar hreinlætisvörur. Það þarf áfram að leita leiða til að koma tíðarvörum á öll klósett.
VIÐBRÖGÐ VIÐ OFBELDI OG ÁREITI
Mikilvægt er að Háskóli Íslands, Stúdentaráð, sviðsráð og nemendafélög vekji athygli á Fagráði Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi, en fagráðið þjónustar alla nemendur við Háskóla Íslands sem og starfsfólk.
-MÁLEFNI FATLAÐS FÓLKS-
AÐGENGI FYRIR ÖLL: BYGGINGAR
Röskva vill að allar byggingar, stofur, skrifstofur og önnur rými á vegum Háskólans séu aðgengilegar öllum, þar á meðal fötluðu fólki og langveiku fólki. Röskva krefst þess að aðgengismál í Háskólanum verði að forgangsatriði hjá ráðafólki Háskólans. Vert er að benda á að ekki öll rými uppfylla þau skilyrði sem varða aðgengi allra, má þar nefna Háskólatorg, Háskólaræktina, Eirberg, Læknagarð og lyftuna í Árnagarði.
AÐGENGI FYRIR ÖLL: NÁM
Röskva krefst þess að engin séu tilneydd eða finni þrýsting til þess að hætta í því námi sem þau vilja stunda, t.d. vegna fötlunar eða veikinda. Námsefni þarf að vera á því formi sem hentar nemanda best og þarf það að vera til staðar frá upphafi kennslu til þess að koma í veg fyrir að fólk hætti í námi vegna lélegs aðgengis. Sem dæmi ætti að bjóða upp á hljóðbækur, bækur með blindraletri og auðlesinn texta. Einnig á að vera svigrúm fyrir aðstoðarfólk og túlka í kennslu.
HÁSKÓLI ÍSLANDS ÆTTI AÐ VERA MEÐ EINFALT OG AÐGENGILEGT ÁBENDINGAKERFI
Aðgangur að upplýsingum um aðgengi að háskólabyggingum er óviðunandi og vill Röskva að því verði breytt tafarlaust. Hægt væri að að koma að ábendingum um skort á aðgengi í húsnæðum HÍ, brotum á hagsmunum stúdenta og þess háttar með skilvirku ábendingakerfi.
RÖSKVA VILL PUNKTALETURSMERKINGAR OG LEIÐARLÍNUR Í ALLAR BYGGINGAR HÁSKÓLA ÍSLANDS
Háskólayfirvöld hafa lofað að merkja stofur og skrifstofur skólans með punktaletri og leiðarlínum. Sérstaklega mikilvægt er að lagfæra leiðarlínuna á Háskólatorgi og bæta við fleiri leiðarlínum í allar byggingar háskólans.
BÆTT NÁMSÚRRÆÐI OG KENNSLURÝMI
Röskva vill að tekið sé tillit til sérstakra úrræða sem einstaklingar gætur þurft vegna fötlunar eða námsörðugleika. Röskva vill ekki að neinar kennslustofur hafi einungis sæti með áföstum borðum. Þetta fyrirkomulag hentar illa fyrir einstaklinga sem nota hjólastól eða önnur hjálpartæki, sem og aðra einstaklinga sökum vaxtarlags. Það er ólíðandi að einstaka stúdentar geti ekki setið við borð í kennslustundum.
LÍKAMS- OG HEILSURÆKT GERÐ AÐGENGILEGR
Húsnæði háskólaræktarinnar er óaðgengilegt stúdentum í hjólastólum og öðrum með hreyfihamlanir. Röskva vill að líkams- og heilsurækt sé aðgengileg öllum stúdentum.
AÐGENGI UTAN HÁSKÓLANS
Röskva vill að allar ferðir á vegum Háskólans, nemendafélaga, Stúdentaráðs og annarra félaga innan háskólans séu aðgengilegar öllum. Kennarar eiga að tryggja að aðgengi sé fyrir alla nemendur þegar farið er í vettvangsferðir.
Uppröðun á vörum í Hámu á að vera lóðrétt til þess að fólki af öllum stærðum og líkamlegu atgervi sé kleift að nálgast vörur í Hámu á eigin vegum.
STÚDENTAR MEÐ Í ÁKVARÐANATÖKU
Nauðsynlegt er að fatlaðir stúdentar eigi sæti við borðið í allri ákvarðanatöku er varða málefni fatlaðs fólks.
P-MERKT STÆÐI Á HÁSKÓLASVÆÐINU
Það skal vera tryggt að P-merkt stæði, stæði fyrir fólk með stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, á háskólasvæðinu standist kröfur byggingareglugerða og séu í raun fyrir þau sem þurfa á þeim að halda. Einnig ætti að fjölga slíkum stæðum á háskólasvæðinu umfram lágmarksfjölda samkvæmt reglugerðum.
UPPRÖÐUN Í HÁMU
Uppröðun á vörum í Hámu á að vera lóðrétt til þess að fólki af öllum stærðum og líkamlegu atgervi sé kleift að nálgast vörur í Hámu á eigin vegum.