Málþingið hófst klukkan 13:00 og tók Katrín Björk Kristjánsdóttir fyrst til máls en hún er fyrrum hagsmunafulltrúi SHÍ. Í fyrrasumar var Katrín ráðin af Landssamtökum íslenskra stúdenta (LÍS) til þess að gera rannsókn á stöðu foreldra í háskólanámi á Íslandi og kynnti hún niðurstöður rannsóknarinnar á málþinginu.
Mest sláandi niðurstöðurnar eru að 28% foreldra í háskólanámi eiga frekar eða mjög erfitt með að ná endum saman (vorið 2023), 84% foreldra töldu sig ekki geta stundað nám án vinnu og að 46,6% sögðu reynslu sína af menntasjóði námsmanna vera frekar slæma eða mjög slæma. Heildarsamantekt rannsóknarinnar má finna hér: https://drive.google.com/file/d/1NztUgceZhgzv3ULBL49GTm8AsX7OcSpR/view?usp=sharing
Næst á dagskrá var Kolka B. Hjaltadóttir, laganemi og foreldri tveggja barna, en hún lýsti upplifun sinni af að vera foreldri í háskólanámi. Hún lýsti helst þeim hindrunum sem standa í vegi foreldra í háskólanámi en þar á meðal eru bílastæðagjöldin við HÍ sem munu koma foreldrum í námi sérstaklega illa og óforeldravæn aðstaða. Það séu til að mynda fáar skiptiaðstöður og að erfitt sé að koma ungbarnavögnum á milli staða. Hún minntist einnig á að það hefði hvetjandi áhrif ef það væri hægt að nálgast ungbarnavörur á háskólasvæðinu, til dæmis í Hámu, og ef það væru fleiri foreldravænir viðburðir. Hún deildi með gestum myndum sem gáfu innsýn og ein þeirra vakti sterkustu viðbrögðin en það var mynd af barnakerru út um gluggann á Lögbergi þar sem hún sat í fyrirlestri.

S. Maggi Snorrason, fyrrum stúdentaráðsliði fyrir Röskvu og meðlimur málefnanefndar Röskvu, tók loks til máls og kynnti stefnu Röskvu í fjölskyldumálum. Röskva vill hærri fæðingarstyrki og fjarlægja glufur í því kerfi, lækka einingafjöldann sem þarf fyrir námslán og fæðingarstyrk, hreiður á háskólasvæðið, betra aðgengi fyrir stúdenta með börn, svo sem að skiptiborðum og barnastólum, bæta aðgengi barnavagna og fá barnamat og bleyjur í Hámu.
Eftir kynningarnar þrjár var örstutt hlé, því næst var stutt könnun gerð á Mentimeter þar sem fundargestir gátu sent inn nafnlaus svör við spurningum. Þar fær Háskóli Íslands 4,6 í einkunn af 10 en það telst sem fall í öllum deildum skólans ef um lokapróf væri að ræða. Ýmsar ábendingar komu fram um hvernig mætti bæta aðstæður foreldra innan veggja skólans. En fundargestir gagnrýndu einnig námslánakerfið gríðarlega. Það sem fundargestum fannst ganga vel var að aðstæður foreldra eru hægt að batna, að margir kennarar nýta sér stafrænar lausnir og að Félagsstofnun stúdenta (FS) býður upp á leikskólapláss og fjölskylduvænar stúdentaíbúðir til leigu.
Að lokum tóku Katrín, Kolka og Maggi þátt í pallborði og umræðum við salinn. Þá var meðal annars rætt hversu hátt hlutfall stúdentaíbúða hýsa barnslausa, hvaðan stúdentar eru sem nýta sér stúdentaleikskóla FS, mikilvægi þess að foreldrar láti heyra í sér, félagslíf foreldra í háskólanámi, svo eitthvað sé nefnt.
Ástæða þess að við sáum okkur knúin til þess að efna til málþings var að 37% háskólanema á Íslandi eru foreldrar. Það er langhæsta hlutfallið í Evrópu en hin löndin spanna hlutföllin frá 4% (Frakkland, Holland, o.fl.) til 23% (Noregur). Þessi hlutföll koma úr EUROSTUDENT VIII sem má finna hér: https://www.eurostudent.eu/download_files/documents/EUROSTUDENT_8_Synopsis_of_Indicators.pdf
Comments